Af hverju arðgreiðslur?

Arðgreiðslur eru leið fyrir fyrirtæki til að skila hluthöfum sínum hluta af þeim hagnaði sem myndast í rekstri. Arðgreiðslustefna félags getur veitt innsýn inn í áherslur í rekstri þess, til dæmis hvort áhersla er lögð á vöxt með endurfjárfestingu hagnaðar eða hvort hagfelldara þyki að greiða hluthöfum út fjármuni með arðgreiðslu. Fyrir hluthafa eru arðgreiðslur hluti af ávöxtun fjárfestingar þeirra. 

Nasdaq verðbréfamiðstöð veitir útgefendum rafrænt skráðra hlutabréfa þjónustu vegna útreiknings og greiðslu á arði til hluthafa. Útgefendur geta fengið aðgang að eServices þjónustugátt Nasdaq verðbréfamiðstöðvar til að senda inn umsókn um útreikning og greiðslu arðs í gegnum verðbréfamiðstöðina.  

Að hverju þurfa félög að huga við ákvörðun arðs og í tilkynningum til fjárfesta? 

Til að tryggja rétta og skjóta afgreiðslu á arði og skýr skilaboð til fjárfesta er mikilvægt að félög hugi að að nokkrum lykilupplýsingum sem ættu að koma fram í ákvörðun hluthafafundar og í tilkynningu til fjárfesta.

Eftirfarandi upplýsingar þurfa þannig að koma skýrt fram í tilkynningu um ákvörðun hluthafafundar (vegna arðgreiðslu): 

  • Greiðsla á hlut (Dividend per share) 
  • Arðleysisdagur (Ex-date)  Fyrsti dagur viðskipta án arðsréttinda
  • Viðmiðunardagur (Record date)  Næsti virki dagur á eftir arðleysisdegi
  • Greiðsludagur (Paydate)

Hvað þýða þessi hugtök? 

  • Greiðsla á hlut (Dividend per share) 

Þetta er upphæðin sem hver hluthafi fær greidda fyrir hvern hlut sem hann á. Það er mikilvægt að gefa upp þessa upphæð til að tryggja nákvæmni í útreikningum og greiðslum. Til dæmis, ef einungis er tiltekin heildarupphæð arðgreiðslu, getur verið hætta á að áætluð heildarupphæð verði ekki rétt vegna fjölda aukastafa í útreikningi, fjölda hluthafa og skiptingar nafnverðs. Með því að gefa upp greiðslu á hlut (að hámarki 8 aukastafir ef greitt er í gegnum Nasdaq verðbréfamiðstöð) er tryggt að útreikningarnir verði nákvæmir. 

  • Arðleysisdagur (Ex-date) 

Arðleysisdagur er fyrsti dagur viðskipta án arðsréttinda. Þetta þýðir að ef þú kaupir hlutabréf á eða eftir þennan dag átt þú ekki rétt á arðgreiðslu  og sama skapi ef þú selur hlutabréf á arðleysisdegi eða síðar áttu rétt á arði fyrir umrætt tímabil. Að jafnaði lækkar verð hlutabréfa á arðleysisdegi sem nemur fjárhæð útgreidds arðs á hvern hlut þar sem nýir kaupendur sem kaupa bréfin frá og með þessum degi eiga ekki rétt á arði.   

  • Viðmiðunardagur (Record date) 

Þeir hluthafar sem eru skráðir hluthafar í viðkomandi félagi í lok viðmiðunardags fá greiddan arð. Þar sem viðskipti í kauphöll Nasdaq Iceland eru gerð upp á T+2, þ.e. tveimur dögum eftir að viðskipti eiga sér stað, er viðmiðunardagur yfirleitt dagurinn eftir arðleysisdag, þ.e. tveimur dögum eftir síðasta dag viðskipta sem veita rétt til arðs. 

  • Greiðsludagur (Paydate) 

Greiðsludagur er dagurinn sem arðurinn er greiddur út til hluthafa. Það er mikilvægt að tilgreina þennan dag skýrt í tilkynningu um niðurstöðu hluthafafundar til að hluthafar viti hvenær þeir geta búist við greiðslu.

Mikilvægt að er að hafa í huga að arðleysisdagur, viðmiðunardagur og greiðsludagur eru ávallt á virkum dögum. 

Hafðu samband við okkur á netfangið csd.iceland@nasdaq.com ef þú hefur spurningar um rafræna skráningu hlutabréfa eða þjónustu Nasdaq verðbréfamiðstöðvar.