Nasdaq CSD

Er verðbréfamiðstöð sem starfar í Eistlandi, á Íslandi, í Lettlandi og í Litáen. Skráning verðbréfa hjá Nasdaq verðbréfamiðstöð eykur gagnsæi, eykur trúverðugleika og skapar fleiri tækifæri til að kynna fyrirtæki fyrir almenningi, kröfuhöfum og innlendum sem erlendum fjárfestum.

Nasdaq verðbréfamiðstöð býður upp á þrjá megin þjónustuþætti:

  • Frumskráning verðbréfa
  • Viðhald og varsla verðbréfareikninga (miðlæg vörsluþjónusta)
  • Uppgjörsþjónusta

Að auki veitir Nasdaq verðbréfamiðstöð útgefendum verðbréfa alhliða þjónustu í tengslum við fyrirtækjaaðgerðir, upplýsingar um eigendur verðbréfa, tölfræðilegar upplýsingar, úthlutun auðkennisnúmera (ISIN, LEI) o.fl.

 

Hvað er verðbréfamiðstöð?

Verðbréf svo sem hlutabréf, skuldabréf og hlutdeildarskírteini sjóða eru gefin út og skráð miðlægt í verðbréfamiðstöð. Meginhlutverk verðbréfamiðstöðva er rafræn eignarskráning, varsla verðbréfa og framsal á verðbréfum, ásamt því að vera vettvangur fyrir uppgjör verðbréfaviðskipta.

Nasdaq CSD býður markaðsaðilum í Eystrasaltslöndunum og á Íslandi upp á uppgjör og frágang viðskipta og aðra verðbréfaþjónustu af ýmsu tagi. Nasdaq CSD veitir fleiri en 6.800 útgefendum í öllum fjórum löndunum þjónustu sína og hefur meira en 68 milljarða evra í vörslu sinni.

Nasdaq CSD hefur starfsleyfi samkvæmt Evrópureglugerð um bætt verðbréfauppgjör og verðbréfamiðstöðvar („CSDR-reglugerðinni“) og lýtur eftirliti hlutaðeigandi eftirlitsaðila í hverju landi. Nasdaq CSD er tengt við samevrópska T2S uppgjörskerfið og millibankakerfi (MBK) Seðlabanka Íslands.

Nasdaq CSD SE er í 100% eigu Nasdaq Nordic Ltd, sem er að fullu í eigu Nasdaq Inc.

Eftirviðskiptaumhverfið breytist hratt og markmið okkar hjá Nasdaq CSD er að tryggja að viðskiptavinir okkar og fjárfestar hafi aðgang að bestu fáanlegu þjónustu hverju sinni.“

 

Indars Ascuks, forstjóri Nasdaq CSD

Hvers vegna Nasdaq CSD?

Við bjóðum þátttakendum og útgefendum á fjármálamörkuðum á Íslandi og í Eystrasaltslöndunum upp á staðlað eftirviðskiptakerfi og aðra verðbréfaþjónustu af ýmsu tagi.

Nasdaq CSD fylgir ströngustu viðmiðum um skilvirkni, öryggi og árangur, sem tryggir samræmda starfsemi og þjónustu við viðskiptavini. Verðbréfauppgjörskerfi landanna fjögurra eru rekin í sameiginlegri tækniumgjörð, en Ísland tengist inn í millibankakerfi (MBK) Seðlabanka Íslands fyrir peningauppgjör verðbréfaviðskipta á meðan Eystrasaltslöndin notast við TARGET2-Securities (T2S).

Viðskiptavinir okkar geta þannig fylgt eftir viðskiptasýn sinni á öruggan hátt – með framtíðina að leiðarljósi.

Hvar er hægt að finna Nasdaq CSD?

Við rekum verðbréfamiðstöð með starfsemi á Íslandi, í Eistlandi, Lettlandi og Litáen. Hér fyrir neðan má finna nánari upplýsingar um hverja starfsstöð.