Hlítni og upplýsingagjöf:

Aðild að alþjóðlegum samtökum:

Samtök evrópskra verðbréfamiðstöðva (ECSDA)

Nasdaq verðbréfamiðstöð er aðili að Samtökum evrópskra verðbréfamiðstöðva (e. European Central Securities Depositories Association eða ECSDA). Tilgangur ECSDA er að bjóða upp á lausnir og ráðgjöf á alþjóðavettvangi um tæknileg, efnahagsleg, fjárhagsleg og eftirlitstengd málefni í því augnamiði að draga úr áhættu og auka skilvirkni vörslu og uppgjörs verðbréfa og tengdra greiðslna í Evrópu, í þágu útgefenda, fjárfesta og markaðsaðila.

Alþjóðasamtökin um verðbréfaþjónustu (ISSA)

Nasdaq verðbréfamiðstöð er aðili að Alþjóðasamtökunum um verðbréfaþjónustu (e. International Securities Services Association eða ISSA), sem hefur lögheimili í Sviss og starfar til stuðnings verðbréfaþjónustugeiranum. Á meðal aðila ISSA eru verðbréfamiðstöðvar, vörsluaðilar, tæknifyrirtæki og önnur fyrirtæki í virðiskeðju verðbréfaþjónustu.

Með því að tengja saman aðila sína og auðvelda samvinnu veitir ISSA nauðsynlega forystu til að leiða fram breytingar í verðbréfaþjónustugeiranum. Áhersla er lögð á að finna framsæknar lausnir til að draga úr áhættu og bæta hagkvæmni og skilvirkni – allt frá útgefanda til fjárfestis – sem og að veita víðtæka forystu í hugmyndavinnu um framtíðarþróun geirans.

Alþjóðasamtök opinberra skráningarstofnana auðkennisnúmera (ANNA)

Nasdaq verðbréfamiðstöð er aðili að Alþjóðasamtökum opinberra skráningarstofnana auðkennisnúmera (e. Association of National Numbering Agencies eða ANNA). Fyrirtækið er opinber skráningarstofnun auðkennisnúmera í Eistlandi, Lettlandi, Litháen og á Íslandi og hefur þannig heimild til að úthluta ISIN-númerum fyrir öll verðbréf sem eru gefin út í þessum löndum.

Hlutverk ANNA er að stuðla með virkum hætti að innleiðingu, viðhaldi og aðgangi að stöðlum um verðbréf og tengda fjármálagerninga á grundvelli samræmds og áreiðanlegs kerfis, í þágu heimamarkaða gerninganna og verðbréfageirans í heild. Skráning og viðhald alþjóðlegra staðla á vegum ANNA fer fram í samræmi við reglur sem Alþjóðlegu staðlasamtökin (ISO) setja.