Published on 17.11.25

Öll hlutabréf félagsins sameinuð á einu ISIN 

Amaroq var að bætast í góðan hóp tvískráðra fyrirtækja sem hafa valið Nasdaq verðbréfamiðstöð til að annast vörslu hlutabréfanna hér á landi.  

Heimildarskírteinunum sem voru gefin út af Arion banka hjá Nasdaq verðbréfamiðstöð var skipt út fyrir hlutabréf sem eru eftir sem áður skráð á Aðalmarkað Nasdaq Iceland og gerð aðgengileg til vörslu og uppgjörs fyrir fjárfesta hér á landi í íslenskum krónum í kerfum Nasdaq verðbréfamiðstöðvar. Þar með eru öll viðskipti með hlutabréf félagsins með sama ISIN númeri, CA02311U1030. Með þessu verða viðskipti og uppgjör á milli markaða einfaldari, sem kemur til vegna samtengingar Nasdaq verðbréfamiðstöðvar við alþjóðlegu verðbréfamiðstöðina Clearstream.  

,,Við erum mjög ánægð að geta nýtt okkur tengingu Nasdaq verðbréfamiðstöðvar og Clearstream til að einfalda útgáfu hlutabréfa félagsins, og gera viðskipti og uppgjör á bréfum okkar yfir landamæri auðveldara og skilvirkara. Með þessu auðveldum við einnig aðgengi fjárfesta að hlutabréfum okkar og stuðlum að virkari og betri markaðsumgjörð“, segir Ellert Arnarson, fjármálastjóri Amaroq.