Birt á 24.08.20

Alþjóðlegt uppgjörskerfi skapar viðskiptatækifæri fyrir viðskiptavini

Nasdaq (Nasdaq: NDAQ) tilkynnir að lokaskrefi sameiningar Nasdaq CSD á Íslandi (Nasdaq verðbréfamiðstöð) við Nasdaq CSD SE (Nasdaq CSD) lauk formlega í dag, þegar alþjóðlegt verðbréfauppgjörskerfi Nasdaq CSD var innleitt fyrir íslenska markaðinn. Þar með getur Nasdaq verðbréfamiðstöð nýtt sér að fullu þá möguleika og tengingar sem verðbréfauppgjörskerfi Nasdaq CSD hefur upp á að bjóða og skapað þannig ný tækifæri fyrir innlenda sem erlenda viðskiptavini. Nasdaq verðbréfamiðstöð rann saman við Nasdaq CSD þann 25. maí sl.

 

„Þetta er gríðarlega mikilvægt skref fyrir íslenska markaðinn,“ sagði Magnús Kristinn Ásgeirsson, framkvæmdastjóri hjá Nasdaq verðbréfamiðstöð. „Þar sem bæði þátttakendur á markaði og útgefendur verðbréfa munu njóta aukinnar þjónustu og fjölbreyttara vöruvals en áður hefur þekkst á markaðnum munu markaðstækifæri þeirra aukast í kjölfarið. Að sama skapi munum við í auknum mæli leggja áherslu á þróun og nýsköpun sem mun skila sér til viðskiptavina. Við þökkum bæði starfsfólki og viðskiptavinum fyrir þeirra mikilvæga framlag og samstarf í þessu risaverkefni sem nú er orðið að veruleika.“

 

Innleiðingin mun meðal annars þýða breytt og bætt uppgjörsfyrirkomulag sem auðveldar erlendum fjárfestum að eiga viðskipti með verðbréf gefnum út hjá Nasdaq verðbréfamiðstöð. Þá verður áhersla lögð á að íslensk fjármálafyrirtæki sem þjónusta erlenda viðskiptavini fái stuðning og þjónustu í samræmi við væntingar þeirra og erlendra fjármálafyrirtækja um stöðluð samskipti og verklag sem er viðurkennt á erlendum mörkuðum. Breytingin mun færa viðskiptavinum uppgjör í íslenskum krónum á reikningum í stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands sem uppfyllir breyttar kröfur í regluverki og stenst tæknilegar kröfur sem gerðar eru til innviða á fjármálamarkaði.

 

Þá munu útgefendur verðbréfa hafa aðgang að nýju hluthafaupplýsingakerfi og ráðgjöf og þjónusta  í tengslum við fyrirtækjaaðgerðir verður aukin og færð til samræmis við alþjóðlegt verklag og staðla. Þegar fram líða stundir munu fjárfestar geta gert upp íslensk verðbréf í evrum og að sama skapi munu skráð fyrirtæki geta gefið út verðbréf í evrum. Unnið verður áfram að þessum breytingum og þróun á nýjum vörum og þjónustu næstu misserin.

 

„Við erum afskaplega ánægð með árangursrík lok á tæknilega hluta sameiningarinnar,” sagði Indars Ascuks, forstjóri Nasdaq CSD. „Alþjóðleg uppgjörskerfi verðbréfa taka örum breytingum og þetta skref gerir okkur betur í stakk búin til að þjónusta alla okkar viðskiptavini í samræmi við alþjóðlegar kröfur. Við bjóðum íslenska viðskiptavini okkar velkomna í nútíma uppgjörsumhverfi og hlökkum til að starfa með þeim að framþróun íslensks verðbréfamarkaðar.“

 

Nasdaq verðbréfamiðstöð hefur með þessu samþætt starfsemi sína við Nasdaq CSD til samræmis við kröfur um stjórnarhætti og rekstur í reglugerð ESB um bætt verðbréfauppgjör og um verðbréfamiðstöðvar (CSDR) sem innleidd hefur verið með lögum hér á landi. Starfsemi Nasdaq verðbréfamiðstöðvar hefur verið breytt með það fyrir augum að tryggja öruggari og skilvirkari uppgjörsþjónustu á íslenska verðbréfamarkaðnum í samræmi við alþjóðlega staðla. Verðbréfauppgjörskerfi Nasdaq verðbréfamiðstöðvar starfar á grundvelli íslenskra laga og er undir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands í samstarfi við eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði í þeim löndum sem Nasdaq CSD starfar.

 

Um Nasdaq

Nasdaq (Nasdaq: NDAQ) er alþjóðlegt tæknifyrirtæki sem þjónar verðbréfamörkuðum og öðrum atvinnugeirum. Fjölbreytt framboð okkar af markaðsgögnum, greiningarvörum, hugbúnaði og þjónustu gerir viðskiptavinum okkar kleift að láta framtíðarsýn þeirra verða að veruleika. Til að fræðast meira um félagið, tæknilausnir og störf hjá okkur, smellið á LinkedIn, Twitter @Nasdaq eða www.nasdaq.com

 

Nasdaq CSD Group rekur verðbréfamiðstöðvar í Eystrasaltsríkjunum og á Íslandi, með útibú í Eistlandi, Íslandi, Lettlandi og Litháen. Nasdaq CSD veitir víðtæka þjónustu fyrir verðbréf og verðbréfauppgjör á þeim mörkuðum sem fyrirtækið starfar á. Nasdaq CSD er grundvallarinnviður á fjármálamörkuðum sem framkvæmir uppgjör vegna viðskipta með hlutabréf og önnur verðbréf gefin út af fyrirtækjum og stjórnvöldum. Fyrirtækið hefur starfsleyfi samkvæmt evrópskum reglum um verðbréfamiðstöðvar (e. Central Securities Depository Regulation, CSDR) og er undir eftirliti viðkomandi eftirlitsstofnana. Verðbréfamiðstöðin er knúin með sjálfvirkri greiðslumiðlun (e. straight-through processing technology) sem er tengd við samevrópska T2S kerfið. Nasdaq, Inc. móðurfélagið, veitir þjónustu fyrir verðbréf, viðskipti með þau og uppgjör í meira en 50 löndum. Frekari upplýsingar má finna á vefsíðunni nasdaqcsd.com

 

Fyrirvari vegna staðhæfinga um framtíðarhorfur

Þau mál sem hér er skýrt frá taka til staðhæfinga um framtíðarhorfur sem gerðar eru samkvæmt svonefndum Safe Harbor ákvæðum í bandarískum verðbréfalögum frá 1995 (Private Securities Litigation Reform Act of 1995). Þessar staðhæfingar taka meðal annars til en takmarkast þó ekki við staðhæfingar um afurðir og þjónustu Nasdaq. Við minnum á að þessar staðhæfingar eru ekki trygging fyrir framtíðarafkomu. Raunveruleg niðurstaða kann að vera allt önnur en sú sem fram kemur berum orðum eða með öðrum hætti í staðhæfingum um framtíðarhorfur. Í staðhæfingum um framtíðarhorfur eru ýmsir áhættu- og óvissuþættir eða aðrir þættir sem Nasdaq hefur ekki stjórn á. Þessir þættir byggjast á en takmarkast þó ekki við þætti sem gerð er grein fyrir í ársskýrslu Nasdaq á svonefndu Form 10-K og árshlutaskýrslum sem sendar eru til bandaríska verðbréfaeftirlitsins. Við tökumst ekki á hendur neinar skuldbindingar um að endurskoða að neinu leyti staðhæfingar um framtíðarhorfur.

 

Nasdaq Nordic lýsir sameiginlegri þjónustu Nasdaq Copenhagen, Nasdaq Helsinki, Nasdaq Iceland og Nasdaq Stockholm.

 

Fjölmiðlasamskipti Nasdaq á Íslandi

Kristín Jóhannsdóttir

Sími: 868 9836

kristin.johannsdottir@nasdaq.com