Birt á 25.05.20
Nasdaq verðbréfamiðstöð sameinast Nasdaq CSD SE.
Nasdaq styrkir starfsemi verðbréfamiðstöðva sinna í Evrópu.
Nasdaq (Nasdaq: NDAQ) tilkynnir að Nasdaq verðbréfamiðstöð hf. hefur í dag formlega sameinast Nasdaq CSD SE (Nasdaq CSD). Hið sameinaða félag, Nasdaq CSD, verður með starfsemi í Lettlandi, Eistlandi, Litháen og á Íslandi. Í kjölfar sameiningarinnar verður íslenska starfsemin í stakk búin til að nýta að fullu þá möguleika og tengingar sem verðbréfamiðstöðvakerfi Nasdaq CSD hefur upp á að bjóða og skapa þannig ný tækifæri fyrir innlenda sem erlenda viðskiptavini. Áætlað er að tæknilegum hluta sameiningarinnar, innleiðingu á nýju verðbréfamiðstöðvarkerfi, muni ljúka þann 15. júní n.k..
„Sameining okkar við Nasdaq CSD og innleiðing á alþjóðlegu verðbréfauppgjörskerfi, marka afar mikilvæg tímamót fyrir viðskiptavini okkar hér á landi,“ sagði Magnús Kristinn Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Nasdaq CSD á Íslandi. „Þetta er bæði stærsta innviðabreyting sem og tæknilegu framfarir sem hafa átt sér stað á íslenska verðbréfamarkaðnum í 20 ár og mun gera okkur kleift að taka þátt í nýsköpun og þróun í þessari grein sem mun skila sér til viðskiptavina okkar.“
Nasdaq CSD varð árið 2017 fyrsta verðbréfamiðstöðin í Evrópu til að öðlast starfsleyfi á grundvelli nýrrar evrópskrar reglugerðar um verðbréfamiðstöðvar (e. Central Securities Depository Regulation – CSDR), en hún fékk nýlega leyfi til að starfa hér á landi í samræmi við hana. Hefur Nasdaq CSD samþætt starfsemi Nasdaq verðbréfamiðstöðvar á Íslandi við Nasdaq CSD til samræmis við kröfur CSDR um stjórnarhætti og rekstur, með það fyrir augum að tryggja öruggari og skilvirkari uppgjörsþjónustu á íslenska verðbréfamarkaðnum í samræmi við alþjóðlega staðla.
„Alþjóðlegt uppgjörsumhverfi verðbréfa tekur örum breytingum og því verðum við að tryggja að viðskiptavinir og fjárfestar á mörkuðum okkar hafi ávallt aðgang að bestu fáanlegu vörum og þjónustu á hverjum tíma,“ sagði Indars Ascuks, forstjóri Nasdaq CSD. „Sameining gerir okkur betur í stakk búin til að bjóða upp á úrvalsþjónustu í samræmi við alþjóðlegar kröfur og styðja við áframhaldandi framþróun íslensks verðbréfamarkaðar, m.a. með því að skapa grundvöll fyrir frekari þjónustu gagnvart alþjóðlegum fjárfestum.“
Indars Ascuks, forstjóri Nasdaq CSD mun halda áfram sem forstjóri sameinaðs félags eftir sameininguna. Magnús Kristinn Ásgeirsson situr í framkvæmdastjórn Nasdaq CSD og mun jafnframt leiða starfsemi Nasdaq CSD á Íslandi sem og viðskiptaþróun hjá Nasdaq CSD samstæðunni.
Nasdaq (Nasdaq: NDAQ) er alþjóðlegt tæknifyrirtæki sem þjónar verðbréfamörkuðum og öðrum atvinnugeirum. Fjölbreytt framboð okkar af markaðsgögnum, greiningarvörum, hugbúnaði og þjónustu gerir viðskiptavinum okkar kleift að láta framtíðarsýn þeirra verða að veruleika. Til að fræðast meira um félagið, tæknilausnir og störf hjá okkur, smellið á LinkedIn, Twitter @Nasdaq eða www.nasdaq.com
Nasdaq CSD Group rekur verðbréfamiðstöðvar í Eystrasaltsríkjunum og á Íslandi, með útibú í Eistlandi, Íslandi, Lettlandi og Litháen. Nasdaq CSD veitir víðtæka þjónustu fyrir verðbréf og verðbréfauppgjör á þeim mörkuðum sem fyrirtækið starfar á. Nasdaq CSD er grundvallarinnviður á fjármálamörkuðum sem framkvæmir uppgjör vegna viðskipta með hlutabréf og önnur verðbréf gefin út af fyrirtækjum og stjórnvöldum. Fyrirtækið hefur starfsleyfi samkvæmt evrópskum reglum um verðbréfamiðstöðvar (e. Central Securities Depository Regulation, CSDR) og er undir eftirliti viðkomandi eftirlitsstofnana. Verðbréfamiðstöðin er knúin með sjálfvirkri greiðslumiðlun (e. straight-through processing technology) sem er tengd við samevrópska T2S kerfið. Nasdaq, Inc. móðurfélagið, veitir þjónustu fyrir verðbréf, viðskipti með þau og uppgjör í meira en 50 löndum. Frekari upplýsingar má finna á vefsíðunni nasdaqcsd.com