Birt á 12.01.23
Nasdaq verðbréfamiðstöð býður nú upp á nýja þjónustu fyrir útgefendur hlutabréfa sem gerir þeim kleift að útbúa og skila hlutafjármiðum á xml formi með auðveldum hætti til Ríkisskattstjóra í gegnum ESIS hluthafakerfið.
Þessi nýja þjónusta einfaldar ferlið við að skila hlutafjármiðum til muna og aðstoðar útgefendur við að standa við skyldur sínar tímanlega og á skilvirkan hátt. Í gegnum ESIS geta útgefendur þannig sótt þegar tilbúna xml skýrslu með hlutafjármiðum fyrir síðastliðið ár, miðað við hlutafjáreign þann 31. desember. Áður en skýrslunni er skilað getur útgefandi hlaðið henni niður, skoðað innihald hennar og gert aðlaganir, ef þörf er á. Skýrslan er loks send til RSK í gegnum ESIS, með því að nota RSK veflykil fagaðila.
Þar sem um fyrstu útgáfu þjónustunnar er að ræða hvetjum við viðskiptavini að koma ábendingum á framfæri varðandi það sem megi betur fara í tengslum við skýrsluna eða skilin. Ekki verður innheimt gjald fyrir þjónustuna á þessu ári.
Nasdaq verðbréfamiðstöð hefur að undanförnu unnið að því að þróa nýjar vörur og þjónustur fyrir útgefendur verðbréfa sem og að bæta ESIS hluthafakerfið útgefendum til hagsbóta. Til viðbótar við rauntímaaðgang að hluthafalistum veitir ESIS útgefendum aðgengi að öðrum skýrslum, s.s. topp 20 eigendur og skýrslu um veðhlutfall og eigin bréf, sem sýnir annars vegar hversu stór hluti hlutabréfanna er veðsettur og hins vegar hlutfall eigin bréfa útgefanda af heildarútgefnum hlutabréfum. Skýrslurnar eru aðgengilegar öllum notendum í rauntíma.
Ef þú vilt nýta þér lausnina þá biðjum við þig um að senda okkur línu á netfangið csd.iceland@nasdaq.com eða heyra í okkur í síma 540 5500. Þeir útgefendur sem ekki hafa aðgang að ESIS hluthafakerfinu geta óskað eftir aðgangi með því að fylla út umsókn hér og senda til okkar á netfangið csd.iceland@nasdaq.com.
Ef þú hefur hugmyndir að nýrri þjónustu í ESIS hvetjum við þig til að hafa samband við okkur hjá Nasdaq verðbréfamiðstöð.