Birt á 23.05.25

Í tengslum við vel heppnað  og stærsta almenna hlutafjárútboð Íslandssögunnar á hlutum ríkisins í Íslandsbanka varð gríðarmikil hreyfing á íslenska hlutabréfamarkaðnum, en töluverður fjöldi  almennra fjárfesta kom þá nýr inn.  

Fyrir útboð stóð heildarfjöldi þeirra einstaklinga sem átti hlutabréf í skráðum félögum á Nasdaq Iceland og á reikningi Nasdaq verðbréfamiðstöðvar* í rúmlega 29.000 manns.  

Samkvæmt upplýsingum úr kerfum Nasdaq verðbréfamiðstöðvar jókst fjöldinn verulega eftir útboðið eða í rúmlega 47.300 manns, sem þýðir að fjöldi þeirra einstaklinga sem á hlutabréf um þessar mundir hefur aukist um 63%. 

Sögulega sjáum við að vel útfærð frumútboð og almenn hlutafjárútboð hafa verið vel til þess fallin að auka þátttöku almennra fjárfesta á hlutabréfamarkaði (sjá mynd). Útboð Icelandair árið 2020 var fyrsti vísir að aukinni þátttöku einstaklinga á markaði, þegar fjöldi hluthafa í félaginu fór úr 4.000 í um það bil 11.000 og fjöldi einstaklinga sem átti hlutabréf í skráðu félagi fór úr 9.000 í 17.000. Síðar áttu útboð annarra félaga eins og Síldarvinnslunnar, frumútboð Íslandsbanka, Play og Solid Clouds árið 2021, og Ölgerðarinnar, Nova, Hampiðjunnar árið 2022 og svo Ísfélagsins árið 2024 sömuleiðis þátt í að auka fjölda almennra fjárfesta, en fjöldi þeirra hefur þó haldist nokkuð stöðugur síðan árið 2022 þar til núna.  

 

Í kringum útboðið afgreiddum við hjá Nasdaq verðbréfamiðstöð um 70.000 fyrirmæli um framsal á hlutabréfum í Íslandsbanka þar sem hlutabréfin voru afhent 31.000 þátttakendum í útboðinu. Uppgjörið á þessu sögulega útboði gekk virkilega vel fyrir sig þökk sé góðum undirbúningi og samstarfi við starfsfólk fjármálafyrirtækja sem tók þátt í framkvæmdinni, en móttaka á greiðslum og tímanleg afhending hlutabréfa til 31.000 einstaklinga er stórt og gríðarlega mikilvægt verkefni.  

Það er hverjum markaði mikilvægt að þátttaka almennra fjárfesta sé öflug og virk, bæði fyrir fyrirtæki og fyrir fjárfesta, stóra sem smáa. Ljóst er að margir einstaklingar tóku þátt í hlutabréfaviðskiptum í fyrsta sinn í tengslum við útboð Íslandsbanka. Það væri jákvætt ef sú reynsla yrði þeim hvatning til að kynna sér markaðinn enn frekar og hugsi þátttöku á honum til lengri tíma. 

 

*Heildarfjöldi einstaklinga sem á hlutabréf í félögum skráðum á Nasdaq Iceland og Nasdaq First North vaxtarmarkaðinn. Þessar tölur endurspegla fjölda í öllum félögum, ekki bara Íslandsbanka, en einhver félög fengu nýja hluthafa til sín á þessum tíma.