Með því að skrá kaupréttina rafrænt hjá Nasdaq verðbréfamiðstöð höfum við náð að einfalda ferlið og utanumhald verulega. Starfsfólk sér stöðu og réttindi skýrt í heimabanka og við höfum að sama skapi fullkomna yfirsýn yfir stöðu kauprétta í kerfinu. Þetta eykur traust og fagmennsku í allri meðferð réttindanna

Andri Þór Guðmundsson forstjóri Ölgerðarinnar.

Á undanförnum árum hefur vaxandi fjöldi félaga innleitt kaupréttaráætlanir fyrir starfsfólk sitt sem hluta af starfskjarastefnu (sérstaklega út frá ákvæðum í skattalögum um kaupréttaráætlanir*). Til að bregðast við þessu býður Nasdaq verðbréfamiðstöð nú upp á rafræna útgáfu kauprétta starfsmanna. 

Eitt af þeim félögum sem hefur gert kaupréttarsamning við starfsfólk sitt er Ölgerðin.  Kaupréttirnir voru gefnir út rafrænt hjá Nasdaq verðbréfamiðstöð í september og er Ölgerðin þar með fyrsta félagið sem skráir kauprétti starfsfólks rafrænt hjá Nasdaq verðbréfamiðstöð. Rafræn skráning kauprétta hefur í för með sér fjölmarga kosti fyrir bæði félagið sem gefur þá út og starfsmennina sem njóta þeirra. Hún felur í sér lögformlega staðfestingu á eignarréttindum og veitir rauntímayfirsýn yfir eignarhald á vörslureikningi starfsmanns í heimabanka. Þá verður uppgjör og afhending hlutabréfa til starfsfólks á grundvelli kauprétta einfaldari til muna. 

„Þetta er í fyrsta sinn sem kaupréttir starfsmanna eru skráðir rafrænt í verðbréfamiðstöð á Íslandi og við teljum það vera mikilvægt skref í því að útfæra virðisaukandi þjónustu fyrir viðskiptavini okkar og stuðla að öruggari meðferð kauprétta. Rafræn skráning tryggir skýra eignarheimild starfsmanns, stuðlar að gagnsæi og einfaldar allt utanumhald, bæði fyrir félagið og starfsfólk þess“, segir Magnús Kristinn Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Nasdaq verðbréfamiðstöðvar. 

„Með því að skrá kaupréttina rafrænt hjá Nasdaq verðbréfamiðstöð höfum við náð að einfalda ferlið og utanumhald verulega. Starfsfólk sér stöðu og réttindi skýrt í heimabanka og við höfum að sama skapi fullkomna yfirsýn yfir stöðu kauprétta í kerfinu. Þetta eykur traust og fagmennsku í allri meðferð réttindanna“, segir Andri Þór Guðmundsson forstjóri Ölgerðarinnar. 

Kaupréttir starfsmanna eru mikilvægur hvati í umbunarkerfi fyrirtækja og geta tengt hagsmuni starfsmanna og hluthafa á áhrifaríkan hátt. Með rafrænni skráningu verður þessi tenging enn traustari og gagnsærri. 

Til að fá nánari upplýsingar um ræfræna skráningu kauprétta starfsmanna vinsamlegast hafið samband við okkur með því að senda tölvupóst á: csd.iceland@nasdaq.com

*Að uppfyllum ákveðnum skilyrðum teljast tekjur af hlutabréfum sem keypt eru samkvæmt kauprétti til fjármagnstekna í stað launatekna á því tímamarki sem bréfin eru seld, sbr. 10. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003.