Hér er því um að ræða einn glugga inn í flest allt það sem útgefendur fjármálagerninga þurfa á að halda þegar kemur að yfirsýn og utanumhaldi um útgáfur fjármálagerninga með stafrænum hætti.
Í allri vöruþróun hjá okkur í Nasdaq verðbréfamiðstöð er leiðarstefið að tryggja áreiðanleika og öryggi í því sem við kemur rafrænni skráningu fjármálagerninga og framkvæmd fyrirtækjaaðgerða. Því er sérstaklega ánægjulegt að kynna eServices til leiks, þjónustugátt þar sem félög geta tilkynnt verðbréfamiðstöðinni um fyrirtækjaaðgerðir á staðlaðan, einfaldan og öruggan hátt í stað þess að leggja í mikla handa- og pappírsvinnu.
Fyrirtækjaaðgerð er breyting sem félag gerir og hefur áhrif á eigendur rafrænt skráðra fjármálagerninga. Dæmi um slíkar aðgerðir eru arðgreiðslur, breytingar á hlutafé eða nafnverði skuldabréfa, vaxtagreiðslur, samruni eða skipting félags. Félagið tilkynnir breytinguna til verðbréfamiðstöðvar sem sér um framkvæmdina.
Á litlum markaði eins og þeim íslenska skiptir sköpum að geta boðið upp á alþjóðlega viðurkennt og staðlað verklag, en á undanförnum árum höfum við m.a. innleitt nýtt verðbréfamiðstöðvarkerfi sem hefur gert okkur kleift að komast á sama stað og best gerist á alþjóðlegum mörkuðum og á sama tíma draga úr séríslensku og úreltu verklagi.
Í gegnum eServices þjónustugáttina geta félög nú þegar sent inn fyrirmæli um arðgreiðslur, innlausn skuldabréfa, afborganir, vaxtagreiðslur, hækkun og lækkun hlutabréfa, og útgáfu jöfnunarhlutabréfa með rafrænum hætti. Almennar upplýsingar um félagið og útgáfu fjármálagerninga eru fyrirfram útfylltar, sem bæði sparar tíma og minnkar villuhættu. Jafnframt býður kerfið upp á aðgangsstýringar, rafræna auðkenningu og undirritanir í samræmi við þarfir hvers félags.
Umsóknarferlið er því fljótlegt og félög fá sjálfkrafa upplýsingar um stöðu umsóknar eftir því sem fram vindur í ferlinu.
Við erum hvergi nærri hætt, því í eServices er tiltölulega einfalt að bæta við nýjum aðgerðum og nýrri virkni eftir því sem markaðurinn stækkar og þörfin fyrir fjölbreyttari þjónustu eykst. Þegar fram líða stundir munum við auka enn frekar við sjálfsafgreiðslumöguleika í eServices, m.a. í því augnamiði að hægt verði að sækja um rafræna skráningu fjármálagerninga með einfaldari hætti en nú þekkist. Útgefandi rafrænna fjármálagerninga mun þá geta sótt um ISIN númer og önnur auðkenni fjármálagernings í gegnum kerfið og fyllt inn í rafræna umsókn um nýjan víxil, skuldabréf, hlutabréf eða sjóð.* Jafnframt mun útgefandi á næstunni geta sótt upplýsingar um eigendur fjármálagerninga og hluthafaskýrslur í gegnum sömu þjónustugáttina.
Hér er því um að ræða einn glugga inn í flest allt það sem útgefendur fjármálagerninga þurfa á að halda þegar kemur að yfirsýn og utanumhaldi um útgáfur fjármálagerninga með stafrænum hætti.
Félag þarf ekki að vera skráð í Kauphöllinni til að nota eServices, þjónustan stendur öllum viðskiptavinum Nasdaq verðbréfamiðstöðvar til boða. Með rafrænni skráningu fjármálagerninga hjá Nasdaq verðbréfamiðstöð fá félög betri yfirsýn yfir þá fjármálagerninga sem þau hafa gefið út og geta þjónustað hluthafa og eigendur fjármálagerninga með skilvirkum og öruggum hætti.
eServices stendur öllum fyrirtækjum með rafrænt skráða fjármálagerninga í verðbréfamiðstöðinni til boða.
*Fjármálagerningar eru gefnir út rafrænt eftir að áreiðanleikakönnun hefur verið framkvæmd af Nasdaq verðbréfamiðstöð á útgefanda og fyrirhugaðari útgáfu fjármálagerninga.
Umsóknareyðublað fyrir aðgang að eServices þjónustgátt má finna hér.
Hægt er að sækja um rafræna skráningu fjármálagerninga og aðgang að þjónustugáttinni hjá Nasdaq verðbréfamiðstöð með því að senda tölvupóst á: csd.iceland@nasdaq.com