Birt á 26.06.23

Nasdaq (NDAQ) tilkynnir að Nasdaq verðbréfamiðstöð hefur sett á laggirnar vefgátt – Nasdaq CSD E-Services – fyrir útgefendur verðbréfa sem eru með skráð verðbréf í Nasdaq verðbréfamiðstöð. Í vefgáttinni geta viðskiptavinir framkvæmt fyrirtækjaaðgerðir með miklu einfaldari og öruggari hætti en áður. Nasdaq CSD E-Services er í boði sem hluti af þjónustu fyrir fyrirtæki með skráð verðbréf í verðbréfamiðstöðvum Nasdaq CSD á Íslandi, Eistlandi, Lettlandi og Litháen.

Nasdaq CSD E-Services mun gera viðskiptavinum kleift að framkvæma fyrirtækjaaðgerðir sínar með nútímalegri og öruggari hætti en áður. Sjálfvirkni við gerð umsókna dregur stórlega úr allri handavinnu sem sparar tíma viðskiptavina og eykur nákvæmni og skilvirkni í umsóknarferlinu.

„Fyrirtækjaaðgerðir eru sífellt að verða fleiri og flóknari, og viljum við geta boðið viðskiptavinum okkar þjónustu og lausnir sem auðvelda þeim alla daglega vinnu. Nýja vefgáttin gerir akkúrat það.“, segir Magnús Kr. Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Nasdaq verðbréfamiðstöðvar. „Við munum síðan bæta nýjum þjónustuþáttum við vefgáttina þannig að viðskiptavinir okkar geta meðal annars fyllt út umsóknir og framkvæmt allar fyrirtækjaaðgerðir á einum stað, sem og nálgast allar aðrar nauðsynlegar upplýsingar.“

Útgefendur verðbréfa hafa aðgengi að sögulegu yfirliti yfir fyrirtækjaaðgerðir sem og stöðu fyrirtækjaaðgerða sem eru í vinnslu hverju sinni sem jafnframt uppfærist í rauntíma. Auk þess geta þeir nálgast, undirritað og sent inn umsóknir með rafrænum skilríkjum.

Til að byrja með verða eftirfarandi fyrirtækjaaðgerðir í boði í vefgáttinni; arðgreiðslur, innlausn skuldabréfa og afborganir og/eða vaxtagreiðslur. Á næstu misserum verður fleiri fyrirtækjaaðgerðum bætt við og einnig verður hægt að sækja um nýskráningu verðbréfa í Nasdaq verðbréfamiðstöð í gegnum vefgáttina.

 

Um Nasdaq

Nasdaq (Nasdaq: NDAQ) er alþjóðlegt tæknifyrirtæki sem þjónar verðbréfamörkuðum og öðrum atvinnugeirum. Fjölbreytt framboð okkar af markaðsgögnum, greiningarvörum, hugbúnaði og þjónustu gerir viðskiptavinum okkar kleift að láta framtíðarsýn þeirra verða að veruleika. Til að fræðast meira um félagið, tæknilausnir og störf hjá okkur, smellið á LinkedIn, Twitter @Nasdaq eða www.nasdaq.com

 

Um Nasdaq verðbréfamiðstöð

Nasdaq verðbréfamiðstöð rekur tæknilega innviði fyrir miðlæga útgáfu verðbréfa, uppgjör og frágang verðbréfaviðskipta og veitir aðra fjölbreytta þjónustu fyrir útgefendur verðbréfa og þátttakendur á íslenskum verðbréfamarkaði. Félagið er rekið sem útibú frá Nasdaq CSD sem er móðurfyrirtæki svæðisbundinna verðbréfamiðstöðva á Íslandi og í Eystrasaltslöndunum. Nasdaq CSD, sem er í eigu tæknifyrirtækisins Nasdaq, er með starfsleyfi samkvæmt evrópsku verðbréfamiðstöðvalöggjöfinni CSDR og undir eftirliti eftirlitsstofnana í hverju landi fyrir sig. Frekari upplýsingar má nálgast á www.nasdaqcsd.is