Birt á 14.02.24

Miðvikudaginn 7. febrúar var nýjum uppgjörshring bætt við í verðbréfauppgjörskerfi Nasdaq verðbréfamiðstöðvar.

Uppgjör á afhendingu verðbréfa gegn greiðslu og fyrirtækjaaðgerðum fer nú fram í sex uppgjörshringjum á eftirfarandi tímum:

 

9:15

10:30

11:45

13:00 – Nýr uppgjörshringur

14:00

15:20

 

Frá innleiðingu á núverandi uppgjörskerfi árið 2020 hefur Nasdaq verðbréfamiðstöð, í samvinnu við aðra innviði og þátttakendur, unnið að aukinni skilvirkni í verðbréfauppgjöri í íslenskum krónum.

Í uppgjörshringjunum fer fram allt uppgjör á verðbréfaviðskiptum gegn greiðslu auk þess sem útgefendur verðbréfa greiða fjárfestum afborganir vaxta og arðgreiðslur fyrir milligöngu verðbréfamiðstöðvarinnar og fjármálafyrirtækja.

Uppgjörið er unnið í samvinnu við Seðlabankann en peningahluti uppgjörsins fer fram af reikningum banka í millibankakerfi (MBK) Seðlabanka Íslands.

Viðbótarhringurinn eykur skilvirkni í verðbréfauppgjöri en staðlað og skilvirkt uppgjör er mikilvægur þáttur í heildarstarfsemi fjármálamarkaða. Aukinn fjöldi uppgjörshringja er til þess fallinn að auka rekstraröryggi verðbréfauppgjörskerfisins og stuðla að bættum uppgjörsaga og dregur úr líkum á því að verðbréfaviðskipti séu ekki gerð upp tímanlega. Bættur uppgjörsagi og skilvirkni í uppgjöri er þannig mikilvægur liður í því að byggja upp traustan verðbréfamarkað.